Ráðgjafa- og hugbúnaðarfyrirtækið Expectus hefur ráðið til sín þrjá sérfræðinga, þau Eddu Valdimarsdóttur Blumenstein, Helga Logason og Hörð Kristinn Örvarsson.

Edda er með B.Sc. í Umhverfis- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í Rekstrarverkfræði frá Háskóla Reykjavíkur. Edda starfaði síðast meðfram námi hjá Orkuveitu Reykjavíkur við verkefni tengd gagnavinnslu og framsetningu gagna. Þar áður vann Edda hjá nýsköpunarfyrirtækinu d|rig í Noregi sem sérhæfir sig í endurnýjun raftækja. Störf Eddu innan d|rig voru fjölbreytt en vinna hennar fólst að mestu í því að stækka starfsemi fyrirtækisins á alþjóðlegri grundu. Hjá Expectus mun Edda leggja megin áherslu á innleiðingu viðskiptagreindar í Azure og tekjueftirlit hjá viðskiptavinum með TimeXtender, exMon, Tableau og fleiri lausnum.

Helgi er með B.Sc. í Fjármálaverkfræði frá Háskóla Reykjavíkur og M.Sc. í Áhættustýringu og Fjármálaverkfræði frá Imperial College Business School. Helgi starfaði síðast hjá BlueBay Asset Management í London þar sem helstu verkefni voru meðal annars umsjón með reglulegum áhættu- og frammistöðuskýrslum til sjóðstjóra og fjárfesta og viðhald á gagnasafni og aukinni sjálfvirkni í skýrsluferlum. Hjá Expectus mun Helgi leggja megin áherslu á innleiðingu viðskiptagreindar í Azure og tekjueftirlit hjá viðskiptavinum með TimeXtender, exMon, Tableau og fleiri lausnum.

Hörður Kristinn er með B.Sc. gráðu í Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í Iðnaðarverkfræði og verkefnastjórnun frá Dansk Tekniske Universitet með áherslu á bestun og gagnagreiningu. Hörður hefur meðfram námi unnið sem aðstoðarkennari í DTU þar sem helstu verkefni voru meðal annars aðgerðargreining og bestun og gerð reiknilíkana og módela fyrir stjórnendur til að geta tekið ákvarðanir byggðar á gögnum í rauntíma. Hjá Expectus mun Hörður Kristinn leggja megin áherslu á innleiðingu viðskiptagreindar í Azure og tekjueftirlit hjá viðskiptavinum með TimeXtender, exMon, Tableau og fleiri lausnum.